Saga hafnarinnar

 

Góð höfn frá náttúrunnar hendi 

Siglingar hafa verið til Grundarfjarðar frá fornu fari, enda er þar talin vera mjög góð höfn frá náttúrunnar hendi. Í heimildum er greint frá skipakomum þangað allt frá landnámsöld. Gamli verslunarstaðurinn í Grundarfirði var við suðaustanverðan botn fjarðarins í landi jarðarinnar Grundar. Á tímum einokunarinnar höfðu kaupmenn þar aðstöðu. Stóðu verslunarhúsin á malarkampi, sem ýmist var nefndur Grundarkambur eða Grundarkampur. 

Við upphaf fríhöndlunar jókst vegur Grundarfjarðar mjög, þegar ákveðið var að þar skyldi verða einn þeirra sex kaupstaða sem stofnaðir voru með konungsúrskurði hinn 18. ágúst 1786. Hinir kaupstaðirnir voru Reykjavík, Ísafjörður, Akureyri, Eskifjörður og Vestmannaeyjar. Áttu þeir að verða miðstöðvar verslunar, útgerðar og iðnaðar hver í sínum landshluta og aðsetur opinberra stofnana og embættismanna.
Verslun var rekin á Grundarkampi fram eftir 19. öld, en eftir að allir áðurgreindir staðir misstu kaupstaðarréttindi sín árið 1836, nema Reykjavík, dró úr athafnasemi þar. Staðurinn var þó áfram löggiltur sem verslunarstaður. 

Frakkar í Grundarfirði

Eftir aldamótin 1800 höfðu Frakkar aðsetur í Grundarfirði og virðast hafa átt þar allar eignir, verið með kirkju og sjúkrahús auk þjónustu við skipaflota sinn. Þegar Frakkar hættu rekstri sínum um 1860, tóku þeir með sér öll mannvirki og grófu upp jarðneskar leifar landa sinna og höfðu með sér til Frakklands. Haft hefur verið á orði að Grundarfjörður sé eini bærinn á Íslandi sem fluttur hafi verið úr landi í heilu lagi. 

Verslunarstaðurinn fluttur í Grafarnes

Í lok 19. aldar er verslunarstaðurinn fluttur af Grundarkampi í Grafarnes og fékk hann löggildingu þar árið 1897. Fyrstu húsin, svonefnd Neshús, voru byggð í Grafarnesi árið 1906 ásamt skansi í fjörunni framaf til fisklöndunar. Árið 1928 var stofnað hlutafélag um rekstur íshúss í Grundarfirði og starfaði það í 6-7 ár. Um 1930 tók íbúðarhúsum að fjölga. Á fjárlögum áranna 1937 og 1938 veitti ríkissjóður 4.000 kr. til lendingarbóta í Grundarfirði gegn því að sveitarfélagið eða aðrir aðilar legðu á móti að minnsta kosti 2/3 hluta heildarkostnaðarins eða 8.000 kr. Þar sem fjármagn lá ekki á lausu á þeim tíma tók það sveitarfélagið tvö ár að hefja framkvæmdirnar, lengingu á bátabryggjunni svo unnt væri að afgreiða þar 10 til 15 tonna báta.

Eftir að hafnarbæturnar hófust í Grundarfirði var ákveðið að hefja byggingu hraðfrystihúss. Í kjölfar almenns borgarafundar í janúarmánuði árið 1940 fór fram söfnun á hlutafjárloforðum í Hraðfrystihús Grundarfjarðar hf. og fór svo að hver vinnufær maður innan sveitarfélagsins hét einhverju hlutafé. Fyrirtækið hóf svo að taka á móti fiski til vinnslu á miðju ári 1942. 

 
Þéttbýli byrjar að myndast

Eiginleg þéttbýlismyndun hófst í Grundarfirði upp úr 1940 og eftir að þorp tók að myndast þar fluttust margir búferlum þangað úr sveitinni eða stunduðu þar atvinnu jafnhliða búskapnum. Kauptúnið í Grundarfirði hefur risið frá grunni á einum mannsaldri. Íbúarnir hafa allt til dagsins í dag byggt afkomu sína á sjósókn og vinnslu sjávarafurða. Þeir hafa á skömmum tíma byggt upp nútímalegt þéttbýlissamfélag sem nú telur á tíunda hundrað íbúa. Frá Grundarfirði eru gerðir út togarar og smærri bátar, þrjú fiskvinnslufyrirtæki eru meðal stærstu atvinnuveitenda á staðnum, auk þess sem starfrækt eru smærri fiskverkunarfyrirtæki. Fjölmörg fyrirtæki eru starfrækt sem þjónusta útgerðina og fiskvinnslu. Margvíslegar hafnarbætur hafa verið gerðar í Grundarfjarðarhöfn frá því framkvæmdir hófust við fyrstu hafnarmannvirkin.

© 2023 by Kant & Rider. Proudly created with Wix.com