Hafnaraðstaða

 

Grundarfjarðarhöfn er góð höfn frá náttúrunnar hendi. Innsiglingin er mjög greið og aðkoma skipa inn í höfnina eins og best gerist. Höfnin flokkast sem meðalstór fiskihöfn. Markvisst hefur verið unnið að hafnabótum á undangengnum árum, m.a. að aukningu viðlegurýmis. 

Norðurgarður 

Í september 2002 fór fram fyrsta löndun við nýjan bryggjukant, 100 metra lengingu Norðurgarðs (stóru bryggju). Það var þó ekki fyrr en í apríl 2003 að framkvæmdinni var að fullu lokið og hún formlega vígð og tekin í notkun. Við þann viðlegukant er 8 metra dýpi á stórstraumsfjöru á um 100 metra kafla og vinnurými er á 4000 fermetra athafnasvæði sem býður upp á mikla möguleika. Fyrir ofan nýju lenginguna er 125 metra viðlega með 6,5 metra dýpi og 30 metrar með 4 metra dýpi.

Landfylling við Norðurgarð

Árið 2005 hófst undirbúningur að gerð landfyllingar við Norðurgarð en með þeirri framkvæmd varð til byggingarland á besta stað við höfnina. Á svæðinu, sem nú er nánast fullbyggt, hafa verið reistar byggingar eins og frystigeymsla Snæfrosts, hús Fiskmarkaðs Íslands og löndunarþjónustunnar Djúpakletts og geymsluhúsnæði Saltkaupa. 

Miðgarður

Árið 2008 var tekin í notkun ný bryggja, 85 m löng, fyrir viðlegu fiskiskipa. Bryggjan ber heitið Miðgarður og kom í stað hinnar gömlu litlu bryggju sem samhliða var rifin þar sem hún var úr sér gengin. Um er að ræða samtals 190 metra viðlegu með allt að 6,2 metra dýpi. Samhliða jókst athafnasvæði hafnarinnar. 

Suðurgarður

Viðlegukantur 40 metrar, dýpi 5,5 metrar.

Viðlega smábáta: Tvær flotbryggjur með samtals 110 m viðlegu, 3ja metra breiðar, dýpi 2,5 m.

Alls er í Grundarfjarðarhöfn 480 metra viðlega fyrir stærri skip og 150 metra viðlega fyrir smábáta.

Aðstaða fyrir skemmtiferðaskip og farþega

Aðstaða hefur verið byggð upp til að geta þjónustað gesti skemmtiferðaskipa sem best. Sérstök flotbryggja með landgangi er á nýrri uppfyllingu á milli Norðurgarðs og Miðgarðs. Sú aðstaða nýtist vel farþegum sem ferjaðir eru í land af skipum sem liggja fyrir akkerum á firðinum eða farþegum skemmtibáta sem lagst geta að bryggjunni.

Löndunarkranar

Tveir löndunarkranar eru á Miðgarði.

Rafmagn 

 

Hægt er að landrafmagnstengja skip í öllum viðleguplássum.

63A og 125 A í flestum viðlegum.

 

Hafnsaga

Skipum sem koma í Grundarfjarðarhöfn er ekki skylt að taka hafnsögumann, sbr. hafnarreglugerð Grundarfjarðarhafnar. 
Hafnsaga er þó í boði fyrir þá sem þess óska og skal skipstjóri láta starfsmann hafnar vita með minnst þriggja klukkustunda fyrirvara að hann óski eftir þeirri þjónustu. 
Er hafnsögumanni skylt að fara til móts við skipið allt að 3 sjómílum undan Grundarfjarðarhöfn, ef skipstjóri æskir þess.

© 2023 by Kant & Rider. Proudly created with Wix.com